Norðvestur Evrópu háskólakeppnin í forritun 2025
— Háskólakeppnin í forritun, Keppnir, NWERC
Norðvestur Evrópu háskólakeppnin í forritun var haldin í Karlsruhe 28. - 30. nóvember. Þrjú lið fóru frá Íslandi þetta ár, eitt frá hverjum háskóla sem kennir tölvunarfræði. Keppnin er hluti af alþjóðlegu háskólakeppninni ICPC og fara bestu 13 háskólarnir áfram á Evrópsku Meistarakeppnina (e. European Championship). Einnig tryggja bestu tveir háskólarnir sér pláss á heimsmeistarakeppnina (e. ICPC World Finals).
Norðvestur-Evrópu háskólakeppnin í forritun er keppni þar sem þriggja nemenda teymi frá háskólum um alla Norðvestur-Evrópu takast á við safn reikniritaverkefna. Markmið hvers liðs er að leysa eins mörg verkefni og mögulegt er innan fimm klukkustunda tímamarka. Liðin senda inn mögulegar lausnir sínar í dómnefnd þar sem þær eru sjálfkrafa metnar.
Í ár var eitt íslenskt verkefni samþykkt frá Atla Fannar Franklín. Atla var boðið að vera með í dómnefndinni í ár vegna þess. Verkefni Atla var um að fá jólaseríu til að vera einlita ef það að fikta í einni peru breytir slembið um litastillingu perunnar. Keppendur áttu að reikna hversu margar tilraunir það tæki fyrir tiltekna upprunalega litaskiptingu ef besta mögulega aðferð væri notuð.
Fyrir hönd Háskólans í Reykjavík fóru:
- Aleksa Ilic
- Kristinn Hrafn Daníelsson
- Þórhallur Tryggvason
- Arnar Bjarni Arnarson (þjálfari)
Fyrir hönd Háskóla Íslands fóru:
- Alexander Bjartur Guðbjartsson
- Frigg Einarsdóttir
- Matthías Andri Hrafnkelsson
- Atli Fannar Franklín (þjálfari og dómari)
Fyrir hönd Háskólans á Akureyri fóru:
- Ari Þórðarson
- Guðmundur Jón Bergmannsson
- Jóhann Jörgen Kjerúlf
- Daníel Jóhannsson (þjálfari)
Samtals tóku 141 lið frá 75 háskólum þátt í keppninni. Sigursælasti skólinn var University of Cambridge sem tók fyrsta sætið, en var einnig með lið í 4., 5. og 8. sæti.
Háskóla Íslands vantaði einn keppanda vegna veikinda og endaði í 124. sæti með 3 verkefni leyst af 12 samtals. Háskólinn á Akureyri leysti 4 verkefni og endaði í 113. sæti. Háskólinn í Reykjavík stóð sig best af íslensku skólunum með 6 verkefni leyst í 87. sæti.
Meira um keppnina hér:
Athugið að hægt er að skipta milli stigatöflu æfingakeppninnar og aðalkeppninnar í efra hægra horni.
